Reglur Súlur Vertical 55

 

Reglur hlaupsins byggja á reglum og leiðbeiningum FRI og ITRA um framkvæmd utanvegahlaupa. 

Þátttakendur bera ábyrgð á því að kynna sér þessar reglur og fylgja þeim og tryggja þannig öryggi sitt sem og annarra þátttakenda. 

Skilmálar sem þátttakendur þurfa að undirrita við afhendingu gagna í Súlur Vertical 55:

 

Með undirritun minni staðfesti ég eftirfarandi:

 

Ég er í nægilega góðu ástandi bæði líkamlegu og andlegu til þess að taka þátt í og ljúka við að hlaupa Súlur Vertical 55 km á innan við 13 klst.

 

Ég staðfesti að ég hef áttað mig á erfiðleikastigi 55 km fjallahlaups sem liggur yfir tvö fjöll þar sem veður getur verið slæmt og færð erfið.

 

Ég hef kynnt mér tímamörk sem eru þau að hlauparar þurfa að fara út af drykkjarstöð við Súlubílastæði 8 klst eftir ræsingu hlaups. Ég veit að allir þeir sem ekki ná tímamörkum verða stöðvaðir (án undanþágu).

 

Ég uppfylli kröfur um öryggisbúnað sem er eftirfarandi: 

Skyldubúnaður

  • Brúsi/glas 0,5 l lágmark (ekki glös á drykkjarstöðvum)

  • Sími með næga hleðslu og neyðarnúmerið 112 vistað inn

  • Álteppi að lágmarksstærð 130 x 200 cm 

  • Flauta

  • Jakki

  • Teygjuband/teip (100 x 5 cm)

  • Orka sem samsvarar að lágmarki +600 kcal þegar lagt er af stað

Búnaður sem gæti orðið skyldubúnaður – fer eftir veðurspá og verður ákveðinn 2 dögum fyrir hlaup

  • Buff/húfa og vettlingar

  • Háir sokkar/kálfahlífar eða síðbuxur

Annað:

  • Æskilegt er að hafa leiðina (GPX) í úri/síma/GPS tæki 


 

Ég skil að hlutverk framkvæmdaaðila og starfsmanna hlaupsins felst ekki í að “bjarga” þátttakendum sem eru illa undirbúnir þjálfunarlega, næringarlega, eða skorta viðeigandi útbúnað. Öryggi hvers hlaupara er á hans eigin ábyrgð og hann þarf að hafa færni til að takast á við óvæntar aðstæður.

 

Ég hef lesið og skilið reglur Súlur Vertical og samþykki þær.

 

Ég samþykki að fara eftir þeim leiðbeiningum sem starfsmenn hlaupsins leggja til og þigg þá aðstoð sem þeir álíta að þurfi vegna öryggis míns og annarra.

 

Sem þátttakandi í Súlur Vertical 2021 afsala ég mér öllum rétti til skaðabóta frá skipuleggjendum Súlur Vertical, starfsmönnum og öðrum samstarfsaðilum hlaupsins, vegna meiðsla, veikinda, slyss, eða annarra ófyrirsjáanlegra atvika sem ég gæti orðið fyrir í hlaupinu.


 

Reglur sem lúta að öryggi þátttakenda

Þátttakendur skrifa undir skjal þess efnis að þeir hafi kynnt sér reglur og skilmála hlaupsins og ætli að fara eftir þeim í hvívetna.

Þátttakendur tryggja að þeir séu líkamlega og andlega hæfir og með nægan undirbúning að baki til að hlaupa þá vegalengd sem þeir hafa skráð sig í.

Þátttakendur þurfa að hafa hlaupanúmer sýnilegt að framan.

Þátttakendur þurfa, á meðan hlaupinu stendur, að hafa skyldubúnað á sér og vera viðbúnir því að starfsmenn hlaupsins óski eftir því að sjá öryggisbúnaðinn við afhendingu gagna, í rásmarki áður en keppni hefst, meðan á henni stendur og í endamarki. Ef þátttakandi uppfyllir ekki þessi skilyrði er refsing að bætt sé við 15 - 60 mínútum við lokatíma viðkomandi (fer eftir hve mikinn skyldubúnað vantar). 

Þátttakendur sem neyðast til að hætta í hlaupinu á miðri leið vegna veikinda eða meiðsla, er skylt að gefa sig fram við starfsmenn hlaupsins.

Ef þátttakandi nær ekki tímamörkum við Súlubílastæði, þá er viðkomandi skylt að hætta þátttöku og ekki heimilt að fara lengra. Starfsmenn hlaupsins aðstoða þátttakendur sem ná ekki tímamörkum við Súlubílastæði að endamarki hlaupsins í miðbæ Akureyrar.

Ef einhvern þátttakenda vantar á þátttökulista við Súlubílastæði eða við lok hlaupsins er hann álitinn týndur. Viðbrögð við því er útkall björgunarsveita.

Keppnisreglur 

Þátttakendur þurfa að hafa hlaupanúmer sýnilegt að framan til þess að starfsmenn geti séð hverjir eru skráðir í hlaupið. Í hlaupanúmerinu er tímatökuflaga. 

Þátttakendur skulu fara yfir tímatökumottur í rásmarki, við Lamba og í endamarki.

Þátttakendur þurfa að hafa með sér skylduöryggisbúnað alla leið í endamark. Sjá skyldubúnað hér að ofan. 

Skyldubúnað skal hafa með við afhendingu gagna - þar verður fyrsta skoðun skyldubúnaðar.

Óheimilt er að þiggja utanaðkomandi aðstoð einhvers sem ekki er skráður þátttakandi í hlaupið. Það er á ábyrgð hvers þátttakanda að neita utanaðkomandi aðstoð nema um neyðartilvik sé að ræða. Aðstoð og aðhlynning starfsmanna hlaupsins við þátttakendur á meðan hlaupi stendur er leyfð.
 

Undantekning frá utanaðkomandi aðstoð er á aðstoðarstöð (Súlubílastæði, drykkjarstöð 3).  Drykkjarstöð nr. 3 er eftir 35 km (AÐSTOÐARSTÖÐ) á Súlubílastæði. Leyfilegt verður að fá aðstoð utanaðkomandi aðila (bara einn aðstoðamaður). Þeir sem ekki eru með aðstoðarmann með sér geta skilið eftir tösku (dropbag) við afhendingu gagna. Þessari tösku verður komið fyrir á Súlubílastæði við drykkjarstöð.

Leyfilegt er að hlaupa með stafi en reglan er sú að þá þarf að hlaupa með þá allt hlaupið  - þú byrjar með stafi - endar með stafi.

 

Það er á ábyrgð hvers þátttakanda að hlaupa ekki með utanaðkomandi hlaupara.

Hver og einn þátttakandi þarf að bera sinn eigin farangur, rusl og drykkjarmál.

Þátttakendur skulu taka tillit til annarra þátttakenda.

Þátttakendur mega aðstoða aðra þátttakendur með öryggi sitt og annarra í huga.

Mótshaldari getur vísað frá keppni hverjum þeim sem fara ekki eftir reglum hlaupsins.

Allir þátttakendur þurfa að virða tímamörk sem eru 8 klukkustundir út af drykkjarstöð við Súlubílastæði. Tímatöku lýkur 13 klst. eftir ræsingu hlaups.

Þátttakendur skulu sýna öllum starfsmönnum hlaupsins kurteisi og fara eftir leiðbeiningum og fyrirmælum þeirra. 

Þegar þátttakendur hafa lokið hlaupi er þeim ekki leyfilegt að fara aftur út á braut til þess að hlaupa með öðrum þátttakendum.

Viðurlög

Þátttakendur sem ekki fara eftir reglum hlaupsins eiga á hættu að verða skráðir úr hlaupinu.

Þeir sem ekki fara eftir settum fyrirmælum verða ábyrgir fyrir þeim kostnaði sem til fellur við leit og/eða umönnun björgunarsveita og annarra starfsmanna.

Þeir sem ekki fara eftir fyrirmælum og reglum hlaupsins eða starfsmanna þess, eiga það á hættu að fá ekki skráningu aftur í hlaupið.